Sjónstöð Íslands
Sjónstöð Íslands er þjónustu- og endurhæfingarstöð blindra og sjónskertra og tók formlega til starfa árið 1987. Sjónstöðin heyrir undir Heilbrigðisráðuneytið og sinnir sjónskertum hvar sem er á landinu. Árlega leita yfir 500 manns á stöðina, þar af um 80 yngri en 18 ára. Hlutverk Sjónstöðvar er síbreytilegt eftir þörfum skjólstæðinga. Stærsti hópurinn kemur til að fá sjúkdómsgreiningu, sjónmælingu, sérhæfð hjálpartæki og þjálfun í notkun þeirra. Stór þáttur í starfsemi stöðvarinnar er fólginn í endurhæfingu og er megin áherslan lögð á að auka sjálfstæði og öryggi blindra og sjónskertra. Sjónstöðin heldur skrá yfir sjónskerta á Íslandi og gefur árlega út tölur um sjónskerðingu.
Stöðin sér einnig um augnsmíði og gleraugnaendurgreiðslur í lækningaskyni sem og úthlutun og þjálfun á sérhæfðan aðgengisbúnað fyrir tölvur.